Categories
Svefnraskanir

Svefnganga

Svefnganga 

Svefnganga (e. sleepwalking) er röskun sem lýsir sér þannig að viðkomandi rís á fætur í svefni og framkvæmir ýmsar athafnir sem venjulega eiga sér einungis stað í vöku. Augun eru opin meðan á svefngöngu stendur, svo viðkomandi sér hvert hann fer og hvað hann er að gera, en augnaráðið er fjarrænt. 

Algengast er að viðkomandi setjist upp í rúminu, gangi um, tali og framkvæmi einfalda hluti, líkt og að klæða sig í, leysa þvag eða borða. Oft eru þessar athafnir þó ekki framkvæmdar á réttan hátt, viðkomandi pissar í fataskáp eða ruslatunnu, fer út um glugga eða klæðir sig í fötin á kolrangan hátt. Athafnirnar geta einnig verið nokkuð flóknar, en dæmi eru um að svefngenglar keyri bíl talsverða vegalengd.  

Svefn skiptist í djúpsvefn (svefnstig 1, 2 og 3) og draumsvefn (REM-svefn), en draumsvefninn er það stig sem tengt er við við drauma. Ólíkt því sem margir halda á svefnganga sér stað í djúpsvefni og er því um að ræða draumlausan svefn. Svefngenglar eru því ekki að leika eftir atburði úr draumum sínum og muna yfirleitt ekkert eftir því sem fram fer meðan á svefngöngu stendur. Oft hafa þeir ekki minnstu hugmynd um að svefnganga hafi átt sér stað þegar þeir vakna næsta morgunn. 

Það getur reynst erfitt að vekja svefngengla og þegar þeir vakna eru þeir oft ruglaðir og utan við sig. Venjulega er ekki talið hættulegt að vekja svefngengla og stundum er það nauðsynlegt séu þeir sjálfir eða aðrir í hættu. Sumir svefngenglar, sér í lagi karlmenn, eiga þó til að sýna ofbeldisfulla hegðun í svefni eða rétt eftir að þeir vakna.  

Svefnganga er mun algengari meðal barna en fullorðinna en oftast eldist hún af krökkum. Ekki er vitað með vissu hvers vegna svo er en ein skýringin er sú að börn hafa hærra hlutfall af djúpsvefni en fullorðnir sem eykur líkurnar á að svefnganga geti átt sér stað. Einnig er algengara að svefngöngur eigi sér stað fyrri hluta nætur en þá er meira um djúpsvefn.  

Misjafnt er eftir einstaklingum hve tíð svefngönguköstin eru. Sumir upplifa þau sjaldan, aðrir fá nokkur köst yfir nótt, jafnvel margar nætur í röð. Svefngöngu fylgja oft aðrar raskanir á borð við svefnskelfingu (e. sleep terror) og algengt er að börn, sem ganga í svefni, væti einnig rúmið eða tali í svefni. 

Svefnganga er oft afleiðing óreglulegra svefnvenja, streitu eða álags. Því er mikilvægt að koma sér upp góðri svefnrútínu til að sporna við svefngöngu. Dugi slíkt ekki til og séu svefngönguköstin alvarleg er fólki ráðlagt að leita læknis.     

Svefndeild Landspítala:

https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/svefndeild/ 

  

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine og á heimasíðu National Sleep Foundation:
http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/sleepwalking/overview-facts
https://www.sleepfoundation.org/articles/sleepwalking