Truflanir á REM-svefni (e. REM sleep behaviour disorder, RBD) lýsa sér þannig að viðkomandi leikur eftir drauma sína meðan hann sefur.  

REM-svefn er það stig svefns sem jafnan er tengt við drauma. Í venjulegum REM-svefni sendir heilinn boð um að lama vöðva líkamans sem hindrar að hægt sé að hreyfa hann í REM svefni  Þetta kemur í veg fyrir að líkami hreyfist í takt við drauma. Hjá einstaklingum með RBD virðast þessi boð þó ekki komast fyllilega til skila og geta þeir því hreyft vöðva sína þó þeir séu í draumsvefni. Draumar þeirra eru oft mjög líflegir og jafnvel ofbeldisfullir.  

RBD getur versnað með tímanum og ofbeldi og spenna í draumum aukist. Þetta getur endað með því að viðkomandi skaðar sjálfan sig eða maka og oft er það ástæða þess að hann verður fyrst var við hegðunina. Hegðun viðkomandi er í takt við það sem hann dreymir og því er algengt að hann öskri, sparki, kýli, hoppi eða hlaupi í svefni. Venjulega eru augu einstaklingsins lokuð allan tímann og ekki er algengt að hann gangi um eða yfirgefi herbergið, en slíkt myndi benda til að um svefngöngu væri að ræða, sem er önnur röskun.  

Þar sem REM-svefnlotur verða á um eins og hálftíma fresti yfir nóttina er algengast að hegðunin eigi sér fyrst stað a.m.k. einum og hálfum tíma eftir að viðkomandi sofnar. Hegðunin getur komið fram allt að fjórum sinnum á nóttu, en einnig sjaldnar, svo sem viku- eða mánaðarlega. 

RBD getur komið fram á hvaða aldri sem er. Það er þó algengara meðal karla en kvenna og er líklegast til að koma fram eftir 50 ára aldur. Það er einnig algengara meðal fólks sem þjáist af Parkinson‘s eða MSA (Multiple system atrophy). RBD orsakar venjulega ekki dagsyfju, en aðrar raskanir, t.d. kæfisvefn, geta fylgt og valdið dagsyfju. 

Mælt er með að einstaklingar með RBD haldi reglulegri svefnrútínu og forðist áfengi en slíkt getur aukið á einkennin.  

Þar sem einkenni RBD versna yfirleitt með tímanum er fólki ráðlagt að leita til læknis telji það sig þjást af röskuninni. 

Svefndeild Landspítala:
https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/svefndeild/ 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/rem-sleep-behavior-disorder