Categories
Svefnraskanir

Viltu taka þátt í Svefnbyltingunni

Svefnbyltingin

Lífstílsrannsókn langtímamæling – VSN-22-082

 

Leitað er eftir einstaklingum til að taka þátt í vísindarannsókn á sviði svefnrannsókna.

Þátttakendur: Öll kyn á aldrinum 18-50 ára

Inntökuskilyrði eru líkamsþyngdarstuðull (BMI) ≥ 25, þátttakandi stundi ekki reglulega hreyfingu, hrýtur eða er með sterkan grun um vægan kæfisvefn.  Vaktavinnufólk getur ekki tekið þátt í þessari rannsókn.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt, vinsamlegast svarið skimunarspurningalista (tengill).

Vinsamlega lesið textann hér að neðan til að ganga úr skugga um að þessi rannsókn sé fyrir þig.

Allir valdir þátttakendur verða beðnir um að ganga með snjallúr og fylla út svefndagbók í 2 vikur fyrir íhlutunartímabilið til að fá grunnlínu.Valdir þátttakendur verða beðnir um að svara bakgrunnsspurningalista. Persónulegur hlekkur verður sendur í tölvupósti.

Það verða 5-8  heimsóknir í Háskólann í Reykjavík (byggt á því í hvaða hópi þátttakendur eru),  rannsóknin stendur yfir í  12.vikur.

Þetta verkefni fjallar um að finna nýja nálgun til að meðhöndla hrotur og vægan kæfisvefn með breytingum á lífsstíl. Gögnum verður safnað í Háskólanum í Reykjavík (HR) með svefnmælingum, rafrænni svefndagbók, mismunandi taugasálfræðilegum prófum, spurningalistum, snjallúri, ásamt mælingum á líkamssamsetningu og líkamlegu atgervi.

Möguleg þátttaka felst einnig í að:

  • Svara spurningalistum
  • Ganga tímabundið með snjallúr
  • Skrá í rafræna svefndagbók
  • Gera rafræn athyglis og árveknipróf
  • Mæld verður hæð, þyngd, líkamssamsetning og líkamlegt atgervi
  • Mögulega þátttakaí þjálfunaráætlun
  • Rannsóknin er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Að rannsókn lokinni býðst þátttakendum að fá niðurstöður úr svefn og líkamsmælingum ásamt ráðleggingum ef þurfa þykir að hafa samband við heilsugæslu.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt, vinsamlegast svarið skimunarspurningalista (tengill).

Ef þú hefur spurningar varðandi þátttöku, vinsamlegast hafðu samband í tölvupósti á netfangið: sleeprevolution@ru.is

Einstaklingar sem taka þátt geta hvenær sem er dregið sig úr rannsókninni án skýringa. Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar (VSN 22-082). Ábyrgðarmaður rannsóknar er Erna Sif Arnardóttir, Lektor við Verkfræði og Tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík.

Upplýsingabréf til þátttakenda:

Verkefnið er styrkt er af Horizon 2020 sjóð Evrópusambandsins (verkefnisnr 965417).

Categories
Svefnraskanir

Svefnbyltingin

Svefnbyltingin (e. Sleep Revolution) – þverfaglegt og alþjóðlegt rannsókna- og þróunarverkefni, sem leitt er af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík, hefur fengið tveggja og hálfs milljarða króna (15 milljón evra) styrk til fjögurra ára úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Að rannsóknunum koma vísindamenn við verkfræði-, tölvunarfræði-, sálfræði- og íþróttafræðideildir Háskólans í Reykjavík, íslensku fyrirtækin Nox Medical og Sidekick Health, hátt í 40 samstarfsaðilar í evrópskum háskólum, heilbrigðisstofnunum og fyrirtækjum ásamt áströlskum háskóla.

Nánar um styrkinn á vefsíðu Evrópuráðsins https://cordis.europa.eu/project/id/965417

Sleep partners
Sleep Revolution partners
Categories
Svefnraskanir

Viltu vinna við svefn og aðstoð við rannsóknir?

Vertu hluti af svefnbyltingunni

Svefnsetrið í Háskólanum í Reykjavík leitar eftir starfsfólki við rannsóknir fyrir Horizon2020 verkefnið Svefnbyltingin sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Við erum að leita að fólki í ýmis störf.

Aðstoðarmaður við uppsetningu á rannsóknum 20-40% starf.

Viltu kynnast uppsetningu svefnrannsókna?

Svefnsetrið í Háskólanum í Reykjavík leitar eftir starfsfólki við aðstoð rannsókna fyrir Horizon2020 verkefnið Svefnbyltingin sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Ef þið viljið aukavinnu á haustönn þá vantar Svefnbyltingunni nokkra starfsmenn í að setja upp svefnmælingar, snjallúr og að hlaða niðurstöðum úr þeim niður og hreinsa búnað.

Hæfni í mannlegum samskiptum, áhugi á svefnrannsóknum, þolinmæði og áhugi fyrir að læra nýja hluti eru helstu hæfniskröfur.

Vinnutími væri mismunandi, síðdegis eða á morgnanna og fram yfir hádegi. Gæti verið um 20-40% vinna.

Aðstoða á vaktir í svefnrannsóknum 50-100% starf

Svefnsetrið í Háskólanum í Reykjavík leitar að aðstoðarmanni á vaktir í svefnrannsóknum fyrir Horizon2020 verkefnið Svefnbyltingin sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Háskólinn í Reykjavík gegnir leiðandi hlutverki í verkefninu sem unnið er í samvinnu við 36 samstarfsaðila í Evrópu og Ástralíu. Samstarfsaðilar koma frá háskólum, iðnaði og heilbrigðisstofnunum. Verkefnið er þverfaglegt með þátttöku fjögurra deilda innan HR: verkfræði-, tölvunarfræði-, íþróttafræði og sálfræðideildar.

Hæfniskröfur eru góð mannleg samskipti og þjónustulund
Sveigjanleiki og getur tileinkað sér nýja tækni hratt
Þolinmæði og nýtur þess að taka þátt í verkefni í þróun

Um er að ræða vaktavinnu, fáar vaktir en langar þar sem má hvíla sig og ekkert álag. Hentar vel þeim sem þeim sem geta tekið langar vaktir og unnið á kvöldin. 50-100% vinna á haustönn.

Endilega hafið samband við Láru laraj@ru.is

Aðstoð við skipulag rannsókna 60-80%

Svefnsetrið í Háskólanum í Reykjavík leitar að aðstoðarmanni við skipulag rannsókna fyrir Horizon2020 verkefnið Svefnbyltingin sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Sækja má um hér
Háskólinn í Reykjavík gegnir leiðandi hlutverki í verkefninu sem unnið er í samvinnu við 36 samstarfsaðila í Evrópu og Ástralíu. Samstarfsaðilar koma frá háskólum, iðnaði og heilbrigðisstofnunum. Verkefnið er þverfaglegt með þátttöku fjögurra deilda innan HR: verkfræði-, tölvunarfræði-, íþróttafræði og sálfræðideildar.

Helstu verkefni og ábyrgð:
• Náin vinna með stuðningsteymi verkefnisins innan HR
• Skipulag og umsjón með samskiptum við rannsóknarþátttakendur
• Skráning og eftirfylgni á svefnrannsóknum
• Aðstoð við svefnrannsóknir og skipulag þeirra
• Skráning og umsjón á þátttakendum í gagnagrunna og eftirfylgni með gæðum
• Innkaup og skrifstofustörf sem tengjast skipulagi svefnrannsóknar

Kröfur til umsækjanda:
• Reynsla af hópastarfi og verkefnastjórnun
• Þekking á helstu Microsoft Office tólum
• Skipulagður með mikla getu til að vinna sjálfstætt.
• Öflugur einstaklingur með góða samskipta- og félagslega hæfni.
• Góð þekking í ensku (munnlegri og skriflegri) er nauðsyn.
• Íslenskukunnátta nauðsynleg
• Öll menntun og lífsreynsla kemur að notum í þessu starfi
• Búseta á höfuðborgarsvæðinu eða nágrenni.

Umsóknarfrestur er 5.september en ráðið verður í stöðuna um leið og hentugur kandídat er fundinn. Óskað er eftir að viðkomandi hefji störf sem fyrst. Staðan er verkefnatengd og því tímabundin til áramóta. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Starfið gæti að hluta til verið unnið heima, hentar vel þeim sem þurfa mikinn sveigjanleika en hafa mikla skipulags og samskiptahæfni.

Categories
Svefnraskanir

Svefnrofalömun

Svefnrofalömun (e. sleep paralysis) er svefnröskun sem felur í sér að einstaklingur verður ófær um að tala og hreyfa líkamann til skamms tíma, líkt og hann sé lamaður, þrátt fyrir að vera vakandi og með meðvitund. Svefnrofalömun getur átt sér stað annars vegar þegar einstaklingurinn er við það að festa svefn, eða þegar hann er að vakna eftir svefn.  

Röskuninni fylgja oft ofsjónir og heyrir einstaklingurinn jafnvel hljóð sem eru tilbúningur t.d. fótatak, tónlist eða raddir. Ástandið varir venjulega í nokkrar sekúndur eða mínútur. Það tekur venjulega enda af sjálfu sér en getur einnig horfið ef einhver talar við eða grípur í viðkomandi. Þessi upplifun getur vakið mikinn óhug og gerist þetta síendurtekið er hætt við að viðkomandi fari að kvíða því að sofa.  

Svefnrofalömun er þó venjulega skaðlaus og á sér eðlilegar skýringar. Lömunin á sér yfirleitt stað í REM-svefni en það er það stig svefns sem jafnan er tengt við drauma. Í svefni sendir heilinn boð um að slaka á vöðvum líkamans svo líkaminn missir hreyfigetu sína til skamms tíma og má því segja að vöðvarnir séu „lamaðir“ í þessu ástandi. Þetta þjónar bæði þeim tilgangi að hvíla vöðvana og endurnæra þá en einnig að koma í veg fyrir að einstaklingar hreyfi líkamann í takt við drauma sína þar sem slíkt gæti reynst þeim skaðlegt. Í vöku hættir heilinn að senda þessi boð og líkaminn öðlast hreyfigetu sína á ný. Þetta getur þó misfarist sem veldur því að þó viðkomandi sé vakandi og með fulla meðvitund er líkami hans enn í þessu svefnástandi. Það má því segja að einstaklingurinn sé bókstaflega á milli svefns og vöku í þessu ástandi.  

Svefnrofalömun kemur oftast fram í kringum táningsaldurinn og er mest áberandi í kringum þrítugs- og fertugsaldurinn. Hún getur þó verið viðvarandi fram eftir aldri. 

Þrátt fyrir að einstaklingurinn geti hvorki hreyft legg né lið í þessu ástandi er hann fær um að anda eðlilega og er því ekki í raunverulegri hættu. Þó ber að nefna að svefnrofalömun getur verið merki um drómasýki, sem er hættulegur sjúkdómur, en hún er mjög sjaldgæf auk þess sem önnur einkenni eru mun meira áberandi sé einstaklingur með drómasýki. 

Líkur á svefnrofalömun aukast verulega ef viðkomandi er undir miklu álagi andlega eða með óreglulegt svefnmynstur. Því getur reynst hjálplegt að koma á góðri svefnrútínu, þ.e. fara alltaf í háttinn og á fætur á sama tíma, takmarka koffín– og áfengisneyslu seinni part dags, takmarka skjánotkun fyrir svefn og stunda líkamsrækt fyrri part dags. 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:

http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/sleep-paralysis

Categories
Svefnraskanir

Dægurvilla

Dægurvilla (e. jet lag), einnig þekkt sem flugþreyta, felst í röskun á dægursveiflu líkamans, einkum vegna ferðalaga milli tímabelta. Helstu einkennin eru þreyta og einbeitingarskortur yfir daginn, erfiðleikar við að sofna á kvöldin, meltingartruflanir og slappleiki.  

Dægursveifla líkamans endurtekur sig lotubundið á u.þ.b. 24 klukkustunda fresti og er talað um líkamsklukku í því samhengi. Líkamsklukkan hefur víðtæk áhrif á líkamsstarfsemi okkar og stjórnar meðal annars hungurtilfinningu, meltingu, líkamshita, hormónastarfsemi og þvagframleiðslu. Mest eru þó áhrifin á svefn og vöku.  

Þegar fer að dimma upplifir einstaklingur þreytu og að sama skapi er  auðveldara  að vakna við sólarupprás. Það er þó ekki einungis birtustigið sem hefur áhrif á þessa tilhneigingu  til að vaka og sofa í reglubundnum lotum, líkamsklukkan  er þarna í aðalhlutverki. Líkamsklukkan verður vissulega fyrir áhrifum dagsbirtu og aðlagar sig samkvæmt gangi sólar. Slíkt tekur þó tíma, svo þegar ferðast er milli tímabelta má segja að líkamsklukkan haldi sínu striki þrátt fyrir að ytri aðstæður breytist gífurlega, þ.e.  innri klukka er engan veginn í takt við staðartíma. 

Dægurvilla er tímabundið ástand, en talið er að líkamsklukkan geti aðeins aðlagað sig um einn klukkutíma fyrir hvern sólarhring í nýju tímabelti. Það þýðir að sé flogið frá Íslandi til New York (4 tíma munur), tekur það  4 daga að aðlagast nýjum tíma. Auðveldara er að aðlagast sé flogið frá austri til vesturs, (flogið til baka í tíma) þar sem  auðveldara er  að vaka lengur en að þvinga fram svefn. 

Röskunin er yfirleitt mest áberandi hjá þeim sem ferðast mikið milli tímabelta, svo sem meðal flugáhafna. Eldri einstaklingar eiga einnig oft erfiðara með að aðlagast nýju tímabelti og fá verri einkenni. 

Til að draga úr einkennum röskunarinnar er mælt með að halda koffín– og áfengisneyslu í lágmarki, eyða tíma utandyra til að auka áhrif dagsbirtu á dægursveifluna, hreyfa sig og haga matar- og drykkjarvenjum samræmi við staðartíma. Melatónín-inntaka getur einnig hjálpað til, en slíkt ætti ávallt að skoða í samráði við lækni. 

  

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine og á Vísindavefnum:
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/jet-lag/overview
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=10612 

Categories
Svefnraskanir

Svefnganga

Svefnganga 

Svefnganga (e. sleepwalking) er röskun sem lýsir sér þannig að viðkomandi rís á fætur í svefni og framkvæmir ýmsar athafnir sem venjulega eiga sér einungis stað í vöku. Augun eru opin meðan á svefngöngu stendur, svo viðkomandi sér hvert hann fer og hvað hann er að gera, en augnaráðið er fjarrænt. 

Algengast er að viðkomandi setjist upp í rúminu, gangi um, tali og framkvæmi einfalda hluti, líkt og að klæða sig í, leysa þvag eða borða. Oft eru þessar athafnir þó ekki framkvæmdar á réttan hátt, viðkomandi pissar í fataskáp eða ruslatunnu, fer út um glugga eða klæðir sig í fötin á kolrangan hátt. Athafnirnar geta einnig verið nokkuð flóknar, en dæmi eru um að svefngenglar keyri bíl talsverða vegalengd.  

Svefn skiptist í djúpsvefn (svefnstig 1, 2 og 3) og draumsvefn (REM-svefn), en draumsvefninn er það stig sem tengt er við við drauma. Ólíkt því sem margir halda á svefnganga sér stað í djúpsvefni og er því um að ræða draumlausan svefn. Svefngenglar eru því ekki að leika eftir atburði úr draumum sínum og muna yfirleitt ekkert eftir því sem fram fer meðan á svefngöngu stendur. Oft hafa þeir ekki minnstu hugmynd um að svefnganga hafi átt sér stað þegar þeir vakna næsta morgunn. 

Það getur reynst erfitt að vekja svefngengla og þegar þeir vakna eru þeir oft ruglaðir og utan við sig. Venjulega er ekki talið hættulegt að vekja svefngengla og stundum er það nauðsynlegt séu þeir sjálfir eða aðrir í hættu. Sumir svefngenglar, sér í lagi karlmenn, eiga þó til að sýna ofbeldisfulla hegðun í svefni eða rétt eftir að þeir vakna.  

Svefnganga er mun algengari meðal barna en fullorðinna en oftast eldist hún af krökkum. Ekki er vitað með vissu hvers vegna svo er en ein skýringin er sú að börn hafa hærra hlutfall af djúpsvefni en fullorðnir sem eykur líkurnar á að svefnganga geti átt sér stað. Einnig er algengara að svefngöngur eigi sér stað fyrri hluta nætur en þá er meira um djúpsvefn.  

Misjafnt er eftir einstaklingum hve tíð svefngönguköstin eru. Sumir upplifa þau sjaldan, aðrir fá nokkur köst yfir nótt, jafnvel margar nætur í röð. Svefngöngu fylgja oft aðrar raskanir á borð við svefnskelfingu (e. sleep terror) og algengt er að börn, sem ganga í svefni, væti einnig rúmið eða tali í svefni. 

Svefnganga er oft afleiðing óreglulegra svefnvenja, streitu eða álags. Því er mikilvægt að koma sér upp góðri svefnrútínu til að sporna við svefngöngu. Dugi slíkt ekki til og séu svefngönguköstin alvarleg er fólki ráðlagt að leita læknis.     

Svefndeild Landspítala:

https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/svefndeild/ 

  

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine og á heimasíðu National Sleep Foundation:
http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/sleepwalking/overview-facts
https://www.sleepfoundation.org/articles/sleepwalking 

Categories
Svefnraskanir

Truflanir á REM-svefni (RBD)

Truflanir á REM-svefni (e. REM sleep behaviour disorder, RBD) lýsa sér þannig að viðkomandi leikur eftir drauma sína meðan hann sefur.  

REM-svefn er það stig svefns sem jafnan er tengt við drauma. Í venjulegum REM-svefni sendir heilinn boð um að lama vöðva líkamans sem hindrar að hægt sé að hreyfa hann í REM svefni  Þetta kemur í veg fyrir að líkami hreyfist í takt við drauma. Hjá einstaklingum með RBD virðast þessi boð þó ekki komast fyllilega til skila og geta þeir því hreyft vöðva sína þó þeir séu í draumsvefni. Draumar þeirra eru oft mjög líflegir og jafnvel ofbeldisfullir.  

RBD getur versnað með tímanum og ofbeldi og spenna í draumum aukist. Þetta getur endað með því að viðkomandi skaðar sjálfan sig eða maka og oft er það ástæða þess að hann verður fyrst var við hegðunina. Hegðun viðkomandi er í takt við það sem hann dreymir og því er algengt að hann öskri, sparki, kýli, hoppi eða hlaupi í svefni. Venjulega eru augu einstaklingsins lokuð allan tímann og ekki er algengt að hann gangi um eða yfirgefi herbergið, en slíkt myndi benda til að um svefngöngu væri að ræða, sem er önnur röskun.  

Þar sem REM-svefnlotur verða á um eins og hálftíma fresti yfir nóttina er algengast að hegðunin eigi sér fyrst stað a.m.k. einum og hálfum tíma eftir að viðkomandi sofnar. Hegðunin getur komið fram allt að fjórum sinnum á nóttu, en einnig sjaldnar, svo sem viku- eða mánaðarlega. 

RBD getur komið fram á hvaða aldri sem er. Það er þó algengara meðal karla en kvenna og er líklegast til að koma fram eftir 50 ára aldur. Það er einnig algengara meðal fólks sem þjáist af Parkinson‘s eða MSA (Multiple system atrophy). RBD orsakar venjulega ekki dagsyfju, en aðrar raskanir, t.d. kæfisvefn, geta fylgt og valdið dagsyfju. 

Mælt er með að einstaklingar með RBD haldi reglulegri svefnrútínu og forðist áfengi en slíkt getur aukið á einkennin.  

Þar sem einkenni RBD versna yfirleitt með tímanum er fólki ráðlagt að leita til læknis telji það sig þjást af röskuninni. 

Svefndeild Landspítala:
https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/svefndeild/ 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/rem-sleep-behavior-disorder 

Categories
Svefnraskanir

Kæfisvefn

Kæfisvefn (e. sleep apnea) er ástand sem einkennist af endurteknum öndunarhléum í svefni ásamt syfju í vöku. Talað er um öndunarhlé ef hlé verður á öndun í 10 sekúndur eða meira. Í kæfisvefni lokast öndunarvegurinn ítrekað, alveg eða að hluta til, og veldur það fyrrnefndum öndunarhléum. Einstaklingur með kæfisvefn reynir að ná andanum með sífellt kröftugri innöndunartilraunum og fylgja þessu oft háværar hrotur eða köfnunarhljóð.

Categories
Svefnraskanir

Fótaóeirð

Fótaóeirð (e. restless legs syndrome) er kvilli sem lýsir sér sem pirringur eða óeirð í fótum og kemur helst fram við hvíld, t.d. við langa setu eða þegar einstaklingurinn leggst til hvílu. Þessu fylgir jafnframt óviðráðanleg löngun til að hreyfa fæturna, en það slær á einkennin. 

Einstaklingar sem þjást af fótaóeirð eiga oft erfitt með að lýsa einkennunum, en greiningarskilyrðin eru eftirfarandi: 

  • Þörf til að hreyfa fætur ásamt óþægindatilfinningu í fótunum. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin byrjar eða versnar í hvíld eða við hreyfingarleysi. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin lagast að hluta til eða alveg við hreyfingu eins og að ganga eða teygja sig, a.m.k. svo lengi sem þessar hreyfingar vara. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin er verri á kvöldin eða á nóttu en á daginn, eða kemur eingöngu fram á kvöldin eða að nóttu til. 

Þrátt fyrir að pirringstilfinningin eigi oftast upptök sín í kálfum geta einkennin einnig leitt út í aðra líkamshluta, svo sem handleggi. 

Einkennin eru oft lengi til staðar áður en viðkomandi leitar sér læknishjálpar, en þau geta versnað og orðið tíðari séu þau ekki meðhöndluð. Svefntruflanir eru helsta ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar. Einstaklingar með alvarleg tilfelli fótaóeirðar ná oft minna en fimm klukkustunda nætursvefniauk þess sem gæði svefnsins skerðast töluvert. Dagsyfja og almenn vanlíðan eru einnig algengir fylgikvillar. Í sumum tilfellum eru einkenni fótaóeirðar þó væg, ganga yfir og þurfa ekki sérstaka meðhöndlun. 

Fótaóeirð er nokkuð algengur kvilli, rannsóknir hafa sýnt fram á að tíðni sjúkdómsins er á bilinu 5-20%

Flestir verða fyrst varir við fótaóeirð upp úr fertugu, en konur virðast um tvisvar sinnum líklegri til að þróa með sér þennan kvilla. Fótaóeirð er einnig algeng á meðgöngu, þá helst á þriðja þriðjungi hennar, en gengur vanalega til baka að henni lokinni. Fótaóeirð virðist að einverju leiti vera ættgeng. 

Nokkrar aðferðir hafa reynst árangursríkar þegar kemur að meðhöndlun sjúkdómsinsEfni á borð við koffín, nikótín og alkóhól geta aukið á einkennin, en hreyfing og nudd mildað þauEinnig eru til lyf á borð við dópamínörvara sem hafa reynst vel, auk þess sem stundum eru gefnar járntöflur, en járnskortur hefur verið tengdur við fótaóeirð.
Þó ber að hafa í huga að það er afar persónubundið hvaða meðferð hentar hverjum og einum. Því ætti ávallt að leita læknis þarfnist einkennin meðhöndlunar. 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna í Læknablaðinu, á doktor.is og á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2012/01/nr/4416
https://doktor.frettabladid.is/grein/fotaoeird
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/restless-legs-syndrome 

Categories
Svefnraskanir

Drómasýki

Drómasýki (e. narcolepsy) er taugasjúkdómur sem einkennist af yfirþyrmandi dagsyfju og í verstu tilfellum slekjuköstum (e. cataplexy). Einkennin eru breytileg milli einstaklinga en auk dagsyfju og slekjukasta eru svefnhöfgaofskynjanir, svefnrofalömun og röskun á nætursvefni tíðir fylgifiskar drómasýki.  

Einstaklingur með drómasýki getur hvorki vakið né sofið nema nokkrar klukkustundir í senn. Yfirþyrmandi svefnþörf kemur yfir viðkomandi síendurtekið yfir daginn sem veldur því að einstaklingar með drómasýki geta sofnað hvar og hvenær sem er, oft í óheppilegum aðstæðum. Þessi svefnköst geta varað í 5-15 sekúndur en einnig birst í formi þreytu sem varir þá allt að klukkustund. Viðkomandi er oft mjög endurnærður og orkumikill eftir þessa stuttu blundi en það varir skammt þar sem svefnþörfin sækir hratt að aftur og mynstrið endurtekur sig. 

Oft er talað er um tvær gerðir drómasýki, drómasýki með slekjuköstum (kataplexíu) og drómasýki án slekjukastaSlekjukast er lömunarástand þar sem vöðvar líkamans missa mátt að hluta til eða alveg, þrátt fyrir að einstaklingurinn sé með fulla meðvitund. Köstin geta varað frá nokkrum sekúndum upp í allt að tvær mínútur og koma yfirleitt fram við tilfinningalegt áreiti. Hlátur, mikil ánægja og það að viðkomandi sé komið á óvart eru oft kveikja slekjukasta og gerir þetta tilfinningalegt líf sjúklinganna verulega erfitt.  

Margt er enn á huldu um hvað það er nákvæmlega sem veldur drómasýki, en svo virðist sem skemmdir verði á taugum sem framleiða boðefnið orexín (einnig þekkt sem hýpókretín). Orexín gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að svefnmynstri okkar. Í stuttu máli virkjar orexín árveknistöðvar heilans sem sjá um að halda vökuástandi . Að sama skapi stöðvast flæði orexíns í svefni. Sé framleiðslu þessa boðefnis raskað, líkt og virðist raunin hjá drómasjúku fólki, verður svefnmynstrið óreglulegt og skilin milli svefns og vöku óljós.  

Drómasýki getur komið fram á hvaða aldri sem er en þó er algengast að einkennin komi fyrst fram á táningsaldri. Talið er að einn af hverjum 2000 þjáist af drómasýki í einhverri mynd, en algengi sjúkdómsins er þó misjöfn eftir landsvæðum. Röskunin hefur verið tengd við ákveðnar genasamsætur og er því arfbundin að einhverju leiti.  

Engin lækning er til við drómasýki, en ýmsar meðferðir og leiðir hjálpa þó við að halda einkennunum í skefjum. Á Íslandi er starfrækt sérstakt félag fyrir fólk með drómasýki þar sem hægt er að leita sér upplýsinga og stuðnings. 

Lokbrá, félag fólks með drómasýki:
https://dromasyki.is/umdromasyki/ 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/narcolepsy