Fótaóeirð (e. restless legs syndrome) er kvilli sem lýsir sér sem pirringur eða óeirð í fótum og kemur helst fram við hvíld, t.d. við langa setu eða þegar einstaklingurinn leggst til hvílu. Þessu fylgir jafnframt óviðráðanleg löngun til að hreyfa fæturna, en það slær á einkennin. 

Einstaklingar sem þjást af fótaóeirð eiga oft erfitt með að lýsa einkennunum, en greiningarskilyrðin eru eftirfarandi: 

  • Þörf til að hreyfa fætur ásamt óþægindatilfinningu í fótunum. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin byrjar eða versnar í hvíld eða við hreyfingarleysi. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin lagast að hluta til eða alveg við hreyfingu eins og að ganga eða teygja sig, a.m.k. svo lengi sem þessar hreyfingar vara. 
  • Hreyfiþörfin eða óþægindatilfinningin er verri á kvöldin eða á nóttu en á daginn, eða kemur eingöngu fram á kvöldin eða að nóttu til. 

Þrátt fyrir að pirringstilfinningin eigi oftast upptök sín í kálfum geta einkennin einnig leitt út í aðra líkamshluta, svo sem handleggi. 

Einkennin eru oft lengi til staðar áður en viðkomandi leitar sér læknishjálpar, en þau geta versnað og orðið tíðari séu þau ekki meðhöndluð. Svefntruflanir eru helsta ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar. Einstaklingar með alvarleg tilfelli fótaóeirðar ná oft minna en fimm klukkustunda nætursvefniauk þess sem gæði svefnsins skerðast töluvert. Dagsyfja og almenn vanlíðan eru einnig algengir fylgikvillar. Í sumum tilfellum eru einkenni fótaóeirðar þó væg, ganga yfir og þurfa ekki sérstaka meðhöndlun. 

Fótaóeirð er nokkuð algengur kvilli, rannsóknir hafa sýnt fram á að tíðni sjúkdómsins er á bilinu 5-20%

Flestir verða fyrst varir við fótaóeirð upp úr fertugu, en konur virðast um tvisvar sinnum líklegri til að þróa með sér þennan kvilla. Fótaóeirð er einnig algeng á meðgöngu, þá helst á þriðja þriðjungi hennar, en gengur vanalega til baka að henni lokinni. Fótaóeirð virðist að einverju leiti vera ættgeng. 

Nokkrar aðferðir hafa reynst árangursríkar þegar kemur að meðhöndlun sjúkdómsinsEfni á borð við koffín, nikótín og alkóhól geta aukið á einkennin, en hreyfing og nudd mildað þauEinnig eru til lyf á borð við dópamínörvara sem hafa reynst vel, auk þess sem stundum eru gefnar járntöflur, en járnskortur hefur verið tengdur við fótaóeirð.
Þó ber að hafa í huga að það er afar persónubundið hvaða meðferð hentar hverjum og einum. Því ætti ávallt að leita læknis þarfnist einkennin meðhöndlunar. 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna í Læknablaðinu, á doktor.is og á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2012/01/nr/4416
https://doktor.frettabladid.is/grein/fotaoeird
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/restless-legs-syndrome