Vísindarannsóknir

Nokkur fjöldi rannsókna er þegar í gangi sem tengjast Svefnsetri HR. Má þar nefna:

 

Tengsl svefnsviptingar við hugræna getu: hlutverk mögulegra áhrifaþátta

Rannsóknir hafa sýnt að mikið vinnuálag getur verið krefjandi fyrir margar vaktavinnustarfstéttir eins og til dæmis flugmenn og flugumferðarstjóra. Álagið getur dregið úr hugrænni getu sem fólk býr yfir til að takast á við verkefni.
Slíkt hefur í för með sér auknar líkur á að mistök séu gerð. Tilgangur rannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á áhrifum svefnsviptingar og endurheimtar á svefni á hugræna getu einstaklinga. Þá er það einnig markmiðið að skilja betur hvernig aðrir þættir eins og lífeðlisleg svörun einstaklinga, innsýn inn í eigið hugarstarf og lífstílsbreytur geta skipt máli.

Ábyrgðarmaður: Kamilla Rún Jóhannsdóttir, dósent við sálfræðideild HR.

 

Ljósameðferð sem dregur úr eða kemur í veg fyrir algengar aukaverkanir í tengslum við meðferð við brjóstakrabbameini

Algengar aukaverkanir krabbameinsmeðferða eru alvarleg þreyta, þunglyndi ásamt vandamálum með svefn og hugræna virkni. Þessar alvarlegu aukaverkanir eru taldar tengjast röskun á dægursveiflum líkamans sem getur fylgt krabbameini og meðferðum við því. Rannsóknir hafa sýnt að meðferð með ljósi getur endurstillt dægursveiflur en slíkt hefur þó lítið verið rannsakað meðal krabbameinssjúkra. Þessari klínísku, slembiröðuðu rannsókn er því ætlað að prófa hvort ljósameðferð geti dregið úr krabbameinstengdri þreytu, þunglyndi og haft jákvæð áhrif á svefn og hugræna virkni meðal sjúklinga í meðferð við brjóstakrabbameini (t.d. skurðaðgerð, lyfjameðferð). Í ljósameðferðinni felst að vera með sérstök ljósagleraugu í 30 mínútur á hverjum morgni en gleraugun eru örugg og gefa ekki frá sér útfjólublátt ljós. Þátttakendur geta sinnt hefðbundnum morgunverkum á meðan þeir hafa gleraugun á sér svo sem að lesa blöðin og borða morgunmat. Í þessari klínísku, slembiröðuðu rannsókn mun verða kannað hvort mismunandi styrkur ljóss hefur áhrif á krabbameinstengda þreytu, svefn, þunglyndi, hugræna virkni, dægursveiflur og bólguvísa meðal sjúklinga sem eru í meðferð við brjóstakrabbameini. Einnig verður kannað hvaða þættir geta miðlað og útskýrt möguleg áhrif ljósameðferðarinnar. Þessi rannsókn getur haft víðtæk áhrif á lýðheilsu þar sem um er að ræða tiltölulega auðvelda og ódýra leið til að draga úr algengum aukaverkunum krabbameinsmeðferðar (t.d. krabbameinstengdri þreytu, þunglyndi).

Þessi rannsókn er unnin í náninni samvinnu við rannsakendur og starfsfólk Landspítala-Háskólasjúkrahúss sem og rannsóknateymi í Bandaríkjunum, Danmörku og Hollandi

Ábyrgðaraðilar: Heiðdís B. Valdimarsdóttir prófessor og Birna Baldursdóttir lektor við sálfræðideild HR.

 

BATNA verkefnið

Rannsóknin er hluti af samstarfsverkefninu BATNA sem er á vegum íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík (HR), rannóknarsetri PAPESH og Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR). Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu á og lágmarka íþróttatengd heilsufars- og stoðkerfisvandamál. Heilsa íþróttafólks verður metin út frá ýmsum sjónarhornum til að öðlast sem víðtækasta þekkingu á viðfangsefninu. Þættir sem greindir eru í rannsókninni eru andleg heilsa, s.s. þunglyndi og kvíði, svefn, næring, álagsmeiðsl sem og önnur heilsufarstengd vandamál. 

Ábyrgðaraðilar: Jose M. Saavedra prófessor og Margrét Lilja Guðmundsdóttir hákólakennari við íþróttafræðideild HR