Dægurvilla (e. jet lag), einnig þekkt sem flugþreyta, felst í röskun á dægursveiflu líkamans, einkum vegna ferðalaga milli tímabelta. Helstu einkennin eru þreyta og einbeitingarskortur yfir daginn, erfiðleikar við að sofna á kvöldin, meltingartruflanir og slappleiki.  

Dægursveifla líkamans endurtekur sig lotubundið á u.þ.b. 24 klukkustunda fresti og er talað um líkamsklukku í því samhengi. Líkamsklukkan hefur víðtæk áhrif á líkamsstarfsemi okkar og stjórnar meðal annars hungurtilfinningu, meltingu, líkamshita, hormónastarfsemi og þvagframleiðslu. Mest eru þó áhrifin á svefn og vöku.  

Þegar fer að dimma upplifir einstaklingur þreytu og að sama skapi er  auðveldara  að vakna við sólarupprás. Það er þó ekki einungis birtustigið sem hefur áhrif á þessa tilhneigingu  til að vaka og sofa í reglubundnum lotum, líkamsklukkan  er þarna í aðalhlutverki. Líkamsklukkan verður vissulega fyrir áhrifum dagsbirtu og aðlagar sig samkvæmt gangi sólar. Slíkt tekur þó tíma, svo þegar ferðast er milli tímabelta má segja að líkamsklukkan haldi sínu striki þrátt fyrir að ytri aðstæður breytist gífurlega, þ.e.  innri klukka er engan veginn í takt við staðartíma. 

Dægurvilla er tímabundið ástand, en talið er að líkamsklukkan geti aðeins aðlagað sig um einn klukkutíma fyrir hvern sólarhring í nýju tímabelti. Það þýðir að sé flogið frá Íslandi til New York (4 tíma munur), tekur það  4 daga að aðlagast nýjum tíma. Auðveldara er að aðlagast sé flogið frá austri til vesturs, (flogið til baka í tíma) þar sem  auðveldara er  að vaka lengur en að þvinga fram svefn. 

Röskunin er yfirleitt mest áberandi hjá þeim sem ferðast mikið milli tímabelta, svo sem meðal flugáhafna. Eldri einstaklingar eiga einnig oft erfiðara með að aðlagast nýju tímabelti og fá verri einkenni. 

Til að draga úr einkennum röskunarinnar er mælt með að halda koffín– og áfengisneyslu í lágmarki, eyða tíma utandyra til að auka áhrif dagsbirtu á dægursveifluna, hreyfa sig og haga matar- og drykkjarvenjum samræmi við staðartíma. Melatónín-inntaka getur einnig hjálpað til, en slíkt ætti ávallt að skoða í samráði við lækni. 

  

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine og á Vísindavefnum:
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/jet-lag/overview
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=10612