Categories
Svefnraskanir

Kæfisvefn

Kæfisvefn (e. sleep apnea) er ástand sem einkennist af endurteknum öndunarhléum í svefni ásamt syfju í vöku. Talað er um öndunarhlé ef hlé verður á öndun í 10 sekúndur eða meira. Í kæfisvefni lokast öndunarvegurinn ítrekað, alveg eða að hluta til, og veldur það fyrrnefndum öndunarhléum. Einstaklingur með kæfisvefn reynir að ná andanum með sífellt kröftugri innöndunartilraunum og fylgja þessu oft háværar hrotur eða köfnunarhljóð.

Þetta getur endurtekið sig allt frá örfáum sinnum á nóttu upp í mörg hundruð skipti. 

Til að um sé að ræða kæfisvefn þurfa öndunarhlé í svefni að vera fimm eða fleiri á klukkustund. Séu öndunarhléin á bilinu 5-15 á klukkustund er talað um vægan kæfisvefn, 15-30 á klukkustund flokkast undir kæfisvefn á meðalháu stigi og séu öndunarhléin orðin fleiri en 30 á klst er talað um kæfisvefn á háu stigi. 

Öndunarhléin geta leitt til þess að einstaklingar með kæfisvefn vakna margoft á næturnar, án þess þó að muna eftir því. Þetta hefur mikil áhrif á gæði svefnsins og veldur oft mikilli dagsyfju. 

Kæfisvefn hefur verið tengdur við marga kvilla og ber þar helst að nefna hækkaðan blóðþrýsting, hjartabilun, hjartsláttartruflanir, sykursýki og þunglyndi. Dagsyfja er einnig alvarlegur fylgikvilli þar sem hún leiðir oft til slysa en umferðarslys eru til að mynda mun algengari meðal einstaklinga með kæfisvefn en annarra. Vegna þess hve svefngæði kæfisvefnssjúklinga eru skert eiga þeir einnig oft erfiðara með að standa sig í vinnu eða námi. 

Offita er stærsti áhættuþátturinn þegar kemur að kæfisvefni en um 60-70% einstaklinga með kæfisvefn eru í yfirþyngd. Þó eru það einnig aðrir þættir sem hafa áhrif, svo sem ættgengni og aldur, en fólk á miðjum aldri er mun líklegra til að glíma við kæfisvefn en aðrir.
Kæfisvefn er einnig mun algengari meðal karla en kvenna, en samkvæmt erlendum rannsóknum hrjáir kæfisvefn um 4% karla og 2% kvenna.  

  

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/sleep-apnea 

Klíniskar leiðbeiningar: