Categories
Almennt um svefn

Almennt um svefn

Almennt um svefn

Meðaleinstaklingur eyðir þriðjungi ævinnar í svefni og það er engin tilviljun. Svefn gefur líkamanum tækfæri til að hvílast og endurnýja sig og styrkir ónæmis- og taugakerfið. Án svefns er heilinn ófær um að skapa og halda utan um minningar og vinna úr tilfinningum  og hugsunum. Svefnskortur eykur líkur á heilsukvillum svo um munar, má þar nefna þunglyndi, hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, sykursýki og of háan blóðþrýsting. Það er óumdeilt að svefn er  lífsnauðsynlegur, grunnstoð líkamlegrar og andlegrar heilsu. 

Þrátt fyrir að flestir viti þetta, gefa fæstir sér nægan tíma til að sofa. Áhrif svefns á vinnuframlag og andlega líðan eru ótvíræð, en því miður venjast margir því að vera aldrei úthvíldir. Viðvarandi þreyta, einbeitingarskortur og skapsveiflur verða hluti af daglegu lífi, svo einstaklingurinn nýtur sín í raun aldrei til fulls, jafnvel þó hann geri sér ekki grein fyrir því. En hvers vegna er svefninn svona mikilvægur?

Svefnstig

Svefninum má skipta í fjögur stig. Þrjú þeirra einkennast af misdjúpum svefni og falla undir það sem er kallað NREM-svefn (nonrapid eye movement). Fjórða stigið er svokallaður bliksvefn, eða REM-svefn (rapid eye movement), en það er það stig svefns sem jafnan er tengt við drauma. Þessi svefnstig endurtaka sig í sífellu meðan á svefni stendur, og er talað um svefnhringi (e. sleep cycle) í því samhengi. Hver svefnhringur er u.þ.b. 90 mínútur og er dýpsti svefninn, stig 3, ráðandi fyrri hluta nætur, en draumsvefninn seinni hluta nætur. Bæði NREM- og REM-svefn gegna mikilvægu hlutverki og virðast báðir nauðsynlegir þegar kemur að úrvinnslu minninga og getu til að læra nýja hluti. 

Svefnstig 1 & 2 (NREM) 
Fyrsta og annað svefnstigið er mjög léttur svefn. Hér hægist á hjartslætti og öndun, vöðvarnir slakna og einstaka vöðvakippir gera vart við sig. Líkamshitastigið lækkar og augnhreyfingar breytast. Á svefnritum má sjá að umtalsvert hægist á heilabylgjum, svo auðgreint er að einstaklingurinn er í svefnástandi. Auðvelt er að vekja einstakling á þessu stigi.  Léttur svefn er stærsti hluti nætursvefnsins.

Svefnstig 3 (NREM) 
Þriðja svefnstigið er djúpsvefn. Djúpsvefninn er nauðsynlegur til að einstaklingar geti vaknað endurnærðir daginn eftir. Hér verða hjartsláttur og öndun eins hæg og mögulegt er og vöðvarnir slakna enn meira en áður. Enn hægist á heilabylgjum og blóðþrýstingurinn lækkarÞað er í djúpsvefni sem vöðvauppbygging á sér stað, frumur endurnýja sig og sogaæðakerfi heilans virkjast og tekur að hreinsa burt eiturefni sem safnast upp í vöku. Á þessu stigi er erfitt að vekja einstaklinga og séu þeir vaktir eru þeir líklega mjög utan við sig og dasaðir.

REM-svefn (draumsvefn) 
Líkt og nafnið gefur til kynna (e. rapid-eye movement sleep), einkennist REM-svefninn af hröðum augnhreyfingum en aðrir vöðvar líkamans eru í eins konar lömunarástandi á þessu stigi. Það gegnir bæði þeim tilgangi að hvíla vöðvana og endurnæra þá, en kemur einnig í veg fyrir að einstaklingar hreyfi sig  í takt við drauma sína, en slíkt gæti reynst skaðlegt. Í REM-svefni eykst tíðni öndunar og hjartsláttar, auk þess sem blóðþrýstingurinn hækkar. Virkni heilabylgja eykst gríðarlega, og verður ekki ósvipuð þeirri sem sést í vöku. Með aldrinum breytist svefnmynstrið til að koma til móts við breyttar þarfir. Nýfædd börn eyða mun lengri tíma í REM-svefni, en hann minnkar svo með aldrinum. 

Draumar

Nær allir draumar eiga sér stað á REM-stigi og er það svefnstig því gjarnan kallað draumsvefn. Draumar spanna u.þ.b. 2 klukkustundir nætursvefnsins, jafnvel þó einstaklingar eigi oft erfitt með að framkalla þessar minningar næsta morgunn. Þó enn sé ekki vitað fyrir víst hvaða tilgangi þeir gegna, hafa draumar verið tengdir við úrvinnslu minninga og tilfinninga, auk þess að örva sköpunarkraft okkar og getu til að leysa vandamál. Sumir halda því fram að draumar séu mikilvægt tól til að vinna úr erfiðum minningum og tengja gamlar minningar við nýskeða atburði, sem gæti fengið mann til að sjá hlutina í nýju samhengi.  

Lífeðlisfræði svefns

Svefninn er flókið lífeðlisfræðilegt fyrirbæri. Áður fyrr var talið að heilinn væri í dvala meðan á svefni stendur. Nú er orðið ljóst að svo er ekki, þvert á móti virkjast fjölmargir hlutar heilans í svefni. 

Í undirstúku heilans er staðsettur svokallaður krossbrúarkjarni (e. suprachiasmatic nucleus (SCN))þyrping af þúsundum frumna sem eru færar um að taka við upplýsingum og vinna úr þeim. Augun nema birtustig og senda þær upplýsingar til krossbrúarkjarnans sem ákveður þá hvort það er nótt eða dagur og aðlagar dægursveiflu okkar að því. Krossbrúarkjarninn sendir síðan boð til heilaköngulsins, sem staðsettur er milli heilahvelanna tveggja. Heilaköngullinn tekur þá að framleiða melatónín, hormón sem er framleitt  þegar tekur að rökkva og gerir líkamanum viðvart um að kominn sé tími á svefn.  

Undirstúkan á síðan samskipti við þann hluta heilans sem kallast heilastofn, en hann stjórnar umbreytingunni úr vökuástandi yfir í svefnástand, eða öfugt, með framleiðslu á taugaboðefninu GABA (gamma-aminobutyric acid ). GABA hefur hamlandi áhrif á taugakerfið og dregur úr virkni árveknistöðva heilans. Heilastofninn sér einnig um að senda boð um að „lama“ vöðva líkamans meðan á REM-svefni stendur, til að koma í veg fyrir að draumar séu leiknir eftir. 

Framheilinn sér einnig um að stýra svefni og vöku, en til þess notast hann við boðefnið adenósín. Meðan á vöku stendur, safnast stöðugt upp meira adenósín, en það eykur svefnþörf. Að lokum verður svefninn óhjákvæmilegur. Hins vegar má blekkja móttökustöðvar heilans, og þar með slá tímabundið á þessa svefnþörf, með neyslu koffínsKoffín binst við sömu móttökustöðvar og adenósín, og kemur þannig í veg fyrir að adenósínið geti sent boð um uppsafnaða þreytu.   

Aftari hluti heilastúku er eins konar boðberi milli tauga og heilabarkar, sem er sá hluti heilans sem túlkar og vinnur úr upplýsingum út frá minni. Heilastúkan er í nokkurs konar dvala stærstan hluta svefnsins, en á REM-stigi virkjast hún og tekur að senda heilaberkinum alls kyns upplýsingar sem koma fram í draumumMandlan, sá hluti heilans sem annast úrvinnslu tilfinninga, er einnig mjög virk í REM-svefni. Því má ætla að REM-svefn sé ansi mikilvægur, bæði fyrir minni og tilfinningalíf.  

 

Categories
Almennt um svefn

Fróðleikur um koffín

Koffín

Koffín er örvandi efni sem finna má frá náttúrunnar hendi í neysluvörum á borð við kaffi, te, kakó og súkkulaði. Þrátt fyrir að margir álíti koffín vera fæðubótarefni er það ekki svo. Koffín flokkast sem hugbreytandi efni og er í raun útbreiddasta hugbreytandi efni heims, auk þess að vera eitt af fáum löglegum.  

Áhrif koffíns á mannslíkamann eru margþætt. Margir reiða sig á daglega koffínneyslu til að draga úr einkennum þreytu og auka einbeitingu. Koffín eykur árvekni og orku til skamms tíma, en getur einnig stuðlað að pirringi, kvíða, ógleði og höfuðverkjum, ásamt því að geta sett svefninn verulega úr skorðum

Hvernig virkar koffín? 
Fyrir hverja 
vökustund safnast upp efni sem kallast adenósín í heilanumAdenósín eykur svefnþörf og þegar safnast hefur upp ákveðið magn verður svefninn óhjákvæmilegur. Koffín binst við sömu viðtaka og adenósín og kemur þannig í veg fyrir að adenósínið geti sent boð um uppsafnaða þreytu.

Flæði adenósíns stöðvast hins vegar ekki þrátt fyrir þetta, það heldur áfram að safnast upp. Þetta gerir það að verkum að þegar líkamanum tekst loks að brjóta niður koffínið, er magn adenósíns í líkamanum orðið umtalsvert meira en áður og er þá talað um að upplifa svokallað koffínhrun (e. caffeine crash).  Helmingunartími koffíns er um sex klukkustundir, sem þýðir að sex klukkustundum eftir að þess er neytt gætir enn áhrifa um 50% koffínsins.

Þrátt fyrir að sumum takist auðveldlega að sofna eftir að hafa neytt koffíns, þýðir það ekki að viðkomandi sofi vel. Koffínneysla kemur niður á gæðum svefnsins, þá sér í lagi djúpsvefnsins. Djúpsvefn er okkur afar mikilvægur en þar fer m.a. fram vöðvauppbygging, frumuendurnýjun og hreinsun eiturefna, auk þess sem hann gerir okkur kleift að vakna endurnærð. Því er mælst til þess að lágmarka neyslu koffíns seinni part dags, til að stuðla að bættum svefni.

Aukaverkanir og fráhvarfseinkenni
Koffín
 er venjulega hættulaust í hóflegu magni, en getur þó kallað fram ýmsar aukaverkanir ef farið er yfir ráðlögð mörk. Má þar nefna svima, skjálfta, öran hjartslátt, hraða öndun, hækkaðan blóðþrýsting, höfuðverk, ógleði og eirðarleysi, auk þess sem það getur aukið á andleg vandamál líkt og kvíða og streitu. 

Sé koffíns neytt reglulega, byggir líkaminn upp sérstakt þol fyrir því og áhrif þess á árvekni minnka til muna. Þess í stað verður koffín oft nauðsynlegt til að byrja daginn og sé þess ekki neytt, eða neyslu skyndilega hætt, finnur viðkomandi oft fyrir fráhvarfseinkennum á borð við höfuðverk, vöðvaverki og þreytu. Fráhvörf frá koffíni eru ekki talin hættuleg, en mælst er til þess að minnka neysluna í skrefum til að lágmarka óþægindi.
 

Hóflegt magn 
Gæta verður þess að neyta koffíns í hóflegu magni, en allt undir 400mg (u.þ.b. 4-5 kaffibollar) á dag telst vera hófleg neysla. Þetta er þó að sjálfsögðu misjafnt eftir hverjum og einum, sumir eru viðkvæmari fyrir koffíni en aðrir og spilar líkamsþyngd, dagsform og uppbyggt koffínþol þar inn í. Þunguðum konum og konum með barn á brjósti er ráðlagt að drekka ekki meira en 200mg á dag, auk þess sem koffínneysla getur reynst skaðleg fyrir börn og unglinga og ættu þau því að forðast það. Koffín hefur ekkert næringargildi, svo hættulaust er að sleppa því alfarið.

 

Heimildir og frekari upplýsingar um koffín má finna á eftirfarandi síðum: 

https://www.fda.gov/consumers/consumer-updates/spilling-beans-how-much-caffeine-too-much 

https://www.mast.is/is/neytendur/mataraedi/ahrif-koffins 

https://www.healthline.com/health/caffeine-effects-on-body#3 

https://www.sleepfoundation.org/articles/caffeine-and-sleep 

https://examine.com/nutrition/how-caffeine-works-in-your-brain/