Categories
Svefnraskanir

Svefnleysi

Svefnleysi (e. insomniakallast það ástand þegar einstaklingur er ófær um að framkalla nægan svefn þrátt fyrir að  tækfæri til þess. Einkenni svefnleysis eru breytileg milli einstaklinga. Svefnleysi getur falið í sér erfiðleika við að festa svefn, erfiðleika við að halda sér sofandi í gegnum nóttina og tilhneigingu til að vakna snemma morguns þrátt fyrir að hafa ekki fengið fullan nætursvefn.  

Helstu einkenni svefnleysis eru almenn þreyta, einbeitingarleysi, dagsyfja, skapsveiflur, orkuleysi, depurð, minnisleysi og áhyggjur af því að fá ekki nægan svefn. 

Svefnleysi hefur víðtæk áhrif á einstaklinginn sem hrjáist af því, bæði í svefni og í vöku. Rannsóknir sýna að svefnleysi hefur neikvæð áhrif á vinnuframlag, ákvarðanatöku og sambönd einstaklingsins, auk þess sem það hefur áhrif á andlegt og líkamlegt atgervi viðkomandi. Í flestum tilvikum skerðir svefnleysi því lífsgæði viðkomandi töluvert. 

Tiltölulega stór hluti fullorðinna einstaklinga telur sig upplifa svefnleysi, en það virðist algengara meðal eldra fólks og kvenna. Andleg veikindi á borð við þunglyndi og kvíða geta einnig ýtt undir svefnleysi. Athuga ber að svefnleysi er ekki það sama og svefnskortur. Svefnskortur er þegar einstakling skortir svefn vegna þess að hann gefur sér einfaldlega ekki tækifæri til að sofa. Flestir eiga erfitt með svefn á einhverjum tímapunkti, en það er ekki talað um svefnleysi fyrr en ástandið er viðvarandi.  

Tegundir af svefnleysi

Til eru tvær gerðir svefnleysis, svokallað skammtímasvefnleysi og langvarandi svefnleysi. Skammtímasvefnleysi varir allt að þrjá mánuði og hrjáir um 10-15% fólks. Talað er um langvarandi svefnleysi þegar einkenni svefnleysis koma fram minnst þrjár nætur í viku og ástandið stendur yfir í minnst þrjá mánuði. Talið er að um 10% Vesturlandabúa hrjáist af langvarandi svefnleysi. 

Ef þú telur að þú þjáist af svefnleysi skaltu leita þér aðstoðar.

Svefndeild Landspítala:
https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/svefndeild/

Betri svefn bíður upp á hugræna atferlismeðferð fyrir þá sem þjást af svefnleysi:
https://www.betrisvefn.is/fraedsla/algengar-spurningar/

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine og heimasíðu Heilsugæslunnar:

http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/insomnia

https://www.heilsugaeslan.is/um-hh/frettasafn/stok-frett/2019/02/07/Svefnleysi/