Um svefnsetrið

Mótar heilsueflandi samfélag

 

Svefnsetrið var stofnað árið 2020 og er rannsóknarsetur innan Háskólans í Reykjavík. Starfsemi setursins er þverfagleg og í samstarfi við  starfsmenn verkfræðideildar, sálfræðideildar, íþróttafræðideildar og tölvunarfræðideildar HR. Svefnsetrið starfar einnig með fagaðilum innan mennta- og heilbrigðiskerfisins og er aðstaða þess aðgengileg þeim sem starfa við rannsóknir er tengjast svefni eða dægursveiflu. Má þar nefna starfsmenn innan Landspítalans, Heilsugæslunnar, Hjartaverndar, Betri Svefns og vísindamenn innan Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. 

Í Svefnsetrinu er fengist við margs konar rannsóknir er varða svefn á Íslandi, svo sem rannsóknir tengdar kæfisvefni og dægursveiflu. Rannsakendur innan Svefnseturins vonast til að geta nýtt sér sérstöðu Íslands þegar kemur að svefnrannsóknunum: Norðlæg lega landsins veldur því að birtuskilyrði hér á landi eru margbreytileg, Íslendingar eru almennt viljugir til að taka þátt í vísindarannsóknum, nokkuð auðvelt er að fylgja hópum eftir í langan tíma, auk þess sem rafrænar sjúkraskrár hér á landi eru mjög góðar. Þetta má nýta við gerð rannsókna á alþjóðavísu.

Svefnsetrið hefur undir höndum ýmsan tækjabúnað sem nýtist við rannsóknir og gerir mögulegt að mæla m.a. stig svefns, hreyfingar, svitavirkni, súrefnismettun, púls, öndun, öndunarerfiði, hljóðupptöku á t.d. hrotum og fleira. Einnig eru til taks hreyfiúr sem eru fær um að greina dægursveiflu einstaklinga yfir nokkra daga og sérstök ljósgleraugu sem geta haft áhrif á fyrrnefnda dægursveiflu. 

Rannsóknir á sviði svefns og dægursveiflu eru gríðarlega mikilvægar, enda er alltaf að koma betur í ljós hve mikil heilsufarsleg áhrif svefns eru. Rannsóknir á þessu sviði gera okkur kleift að skilja betur samspil heila og líkama og þar með hvað má gera til að auka lífsgæði okkar sem einstaklinga, bæði andlega og líkamlega, auk þess að móta samfélagið á heilsueflandi hátt.