Drómasýki (e. narcolepsy) er taugasjúkdómur sem einkennist af yfirþyrmandi dagsyfju og í verstu tilfellum slekjuköstum (e. cataplexy). Einkennin eru breytileg milli einstaklinga en auk dagsyfju og slekjukasta eru svefnhöfgaofskynjanir, svefnrofalömun og röskun á nætursvefni tíðir fylgifiskar drómasýki.
Einstaklingur með drómasýki getur hvorki vakið né sofið nema nokkrar klukkustundir í senn. Yfirþyrmandi svefnþörf kemur yfir viðkomandi síendurtekið yfir daginn sem veldur því að einstaklingar með drómasýki geta sofnað hvar og hvenær sem er, oft í óheppilegum aðstæðum. Þessi svefnköst geta varað í 5-15 sekúndur en einnig birst í formi þreytu sem varir þá allt að klukkustund. Viðkomandi er oft mjög endurnærður og orkumikill eftir þessa stuttu blundi en það varir skammt þar sem svefnþörfin sækir hratt að aftur og mynstrið endurtekur sig.
Oft er talað er um tvær gerðir drómasýki, drómasýki með slekjuköstum (kataplexíu) og drómasýki án slekjukasta. Slekjukast er lömunarástand þar sem vöðvar líkamans missa mátt að hluta til eða alveg, þrátt fyrir að einstaklingurinn sé með fulla meðvitund. Köstin geta varað frá nokkrum sekúndum upp í allt að tvær mínútur og koma yfirleitt fram við tilfinningalegt áreiti. Hlátur, mikil ánægja og það að viðkomandi sé komið á óvart eru oft kveikja slekjukasta og gerir þetta tilfinningalegt líf sjúklinganna verulega erfitt.
Margt er enn á huldu um hvað það er nákvæmlega sem veldur drómasýki, en svo virðist sem skemmdir verði á taugum sem framleiða boðefnið orexín (einnig þekkt sem hýpókretín). Orexín gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að svefnmynstri okkar. Í stuttu máli virkjar orexín árveknistöðvar heilans sem sjá um að halda vökuástandi . Að sama skapi stöðvast flæði orexíns í svefni. Sé framleiðslu þessa boðefnis raskað, líkt og virðist raunin hjá drómasjúku fólki, verður svefnmynstrið óreglulegt og skilin milli svefns og vöku óljós.
Drómasýki getur komið fram á hvaða aldri sem er en þó er algengast að einkennin komi fyrst fram á táningsaldri. Talið er að einn af hverjum 2000 þjáist af drómasýki í einhverri mynd, en algengi sjúkdómsins er þó misjöfn eftir landsvæðum. Röskunin hefur verið tengd við ákveðnar genasamsætur og er því arfbundin að einhverju leiti.
Engin lækning er til við drómasýki, en ýmsar meðferðir og leiðir hjálpa þó við að halda einkennunum í skefjum. Á Íslandi er starfrækt sérstakt félag fyrir fólk með drómasýki þar sem hægt er að leita sér upplýsinga og stuðnings.
Lokbrá, félag fólks með drómasýki:
https://dromasyki.is/umdromasyki/
Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:
http://sleepeducation.org/essentials-in-sleep/narcolepsy