Nemendur í svefnrannsóknum

Viðtal: Benedikt H Þórðarson

Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni.
Ég heiti Benedikt og er meistaranemi í tölvunarfræði. Ég útskrifaðist með BSc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni?
Leiðbeinandi minn í meistaraverkefninu er Dr. Jacqueline C. Mallet, en hún hlaut styrk til að vinna að verkefni í samstarfi við NOX Medical, sem sérhæfir sig í svefnmælitækjum.

Í hverju felst verkefnið þitt?
Ég er að kenna hugbúnaði að brjóta niður öndun einstaklinga, sem tekin er inn í merkjaformi, í staka andardrætti. Auk þess kenni ég hugbúnaðinum að þekkja það hvort umræddur andardráttur eigi sér stað í öndunarhléi eða ekki.

Hvernig hefur verkefnið gengið? Hefur eitthvað komið á óvart eða reynst krefjandi?
Verkefnið hefur gengið nokkuð smurt fyrir sig, en gögnin sem ég vinn með geta þó verið nokkuð flókin og erfið viðureignar. Mikill uppgangur er í rannsóknum á sviði svefnfræða, og er innleiðing tölvunarfræðinnar, vélnáms (e. machine learning) og gervigreindar í svefngeirann fremur nýtilkomin. Það getur því reynst þrautin þyngri að finna rétta nálgun á verkefnum.

Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu?
Þeir sérfræðingar sem koma að verkefninu starfa hjá Svefnsetrinu og hafa þeir hjálpað mér gríðarlega þegar kemur að grunnfræðum svefns, merkjagreiningu og læknisfræðilegum þáttum. Þessi hjálp hefur átt stærstan þátt í því mér tekst að leysa verkefnið á árangursríkan hátt.

Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?
Ég hef lært hve margslungin svefnvísindin eru og að við erum rétt að byrja að átta okkur á hverju má áorka á þessu sviði með smá hugmyndaauðgi.

Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?
Ég held að það sé urmull af tækifærum á sviði svefnvísinda, fyrir þá sem hyggja á frama innan þess geira. Allar lífverur sofa, á einn eða annan hátt, og uppgötvanir á þessu sviði gætu því verið ómetanlegar fyrir mannkynið, enda eyðum við þriðjungi af ævinni sofandi.

Viðtal: Birta Sóley Árnadóttir, nemi í BSc. í sálfræði

Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni.
Ég heiti Birta Sóley og var að klára fyrsta árið mitt í BSc í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni?
Mér hefur alltaf fundist svefninn mikilvægur en áhuginn á því að starfa við svefnrannsóknir kviknaði þegar að Erna Sif kom sem gestakennari í líffræðitíma hjá okkur. Hún fræddi okkur um mikilvægi svefns og hvað gerist í líkamanum á meðan við sofum. Hún sagði okkur frá mismunandi svefnröskunum og talaði til dæmis um ástæðuna fyrir því að það að vaka alla nóttina til þess að læra fyrir próf geti verið skaðlegt fyrir frammistöðuna á prófinu. Fyrirlestrarnir hjá henni kveiktu áhuga minn á fræðunum á bak við svefn og langaði mig að kynnast því hvernig er að vinna við þetta. Ég hafði því samband við Ernu sem hefur síðan veitt mér mikinn stuðning og kennt mér margt.

Í hverju felst rannsóknin þín?
Rannsóknin skoðar áhrif 36 klukkustunda svefnsviptingar og endurheimtasvefns á hugræna getu. Þátttakendum er haldið vakandi og framkvæma þeir hugræn próf og árverknipróf og svara spurningalistum um líðan. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það að fá raunverulegar íslenskar niðurstöður um áhrif svefnsviptingar er stórt skref í hugvakningu um mikilvægi svefns, en samkvæmt Hagstofu er Ísland sú þjóð á norðurlöndunum sem er með flesta einstaklinga í vaktavinnu og er því mikilvægt fyrir okkur að vita hvaða áhrif það hefur og geta frætt um afleiðingu skert svefns.

Hvernig hefur verkefnið gengið? Hefur eitthvað komið á óvart eða reynst krefjandi?
Verkefnið hefur farið hægar af stað heldur en upphaflega var stefnt að vegna Covid19 faraldursins. Hins vegar hefur undirbúningsvinnan gengið vel og höfum við nýtt tímann í það að undirbúa okkur enn betur fyrir framkvæmd rannsóknarinnar.

Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu?
Svefnsetrið er með yfirsjón á uppsetningu svefnmælitækja, framkvæmd árverkniprófa og annarra svefnprófa. Svefnsetrið sér síðan um að vinna úr þessum mælingum og prófum.

Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?
Ég hef lært mjög margt af leiðbeinendum mínum í rannsókninni og tækifærinu að fá að starfa við rannsóknina. Ég hef fengið tækifæri til að nýta það sem ég hef lært á fyrsta árinu mínu í HR og lært ýmislegt sem ég kunni ekki áður. Ég hef lært vinnubrögðin í kringum svefnmælitæki og að leggja fyrir hugræn próf. Ég hef einnig lært mikið um fræðin á bak við svefn og hugræna virkni.

Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?
Ég vil koma til skila þökkum til starfsfólks rannsóknarinnar fyrir góða leiðsögn og frábært tækifæri.

Viðtal: Marta Serwatko

Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni.
Ég kláraði Bsc í Heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík árið 2013 og hóf síðan Msc nám í sama fagi og sama háskóla. Í lok árs 2013 hóf ég hlutastarf með skóla við Svefndeild Landspítalans og þar kynntist ég svefnrannsóknum. Lokaverkefnið mitt í Msc náminu mínu hét „Ný aðferðarfræði til mats á öndunarerfiði í svefni (e. Validation of a new method to assess respiratory effort non-invasively). Ég útskrifaðst sem Heilbrigðisverkfræðingur í janáur 2016. Doktorsnámið mitt hófst formlega árið 2019 og í dag rannsaka ég nýjar aðferðir til að meta svefnháðar öndunartruflarnir, bæði hjá fullorðnum og börnum (e. Development of new analysis techniques for sleep disordered breathing in adults and children. 

Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni?
Svefn snertir okkur öll. Svefninn er einn af grunnstoðum heilbrigðs lífernis. Þrátt fyrir þessa vitneskju setja margir svefninn aftast í forgangsröðinna. Með því að taka þátt í rannsóknum og vísindastarfi vona ég að ég geti uppfylt þá samfélagslegu skyldu mína að koma því til skila að mikilvægt er að gefa svefninum meira vægi. Svo er ég einfaldlega svolítið svefn nörd. 

Í hverju felst rannsóknin þín/verkefnið?
Verkefnið mitt felst í því að skilgreina betri aðferðir til að mæla öndunarerfiði í svefni, bæði hjá börnum og fullorðnum. Nútíma aðferðir byggja á úreltri talningu atburða og taka ekki tilltil til margs konar þátta. Ég vil þróa nákvæmari aðferð og bera hana síðan saman við neikvæðu afleiðingarnar sem aukið öndunarerfiði í svefni hefur á fólk.  

Hvernig hefur verkefnið gengið?
Almennt mjög vel en eins og sagt er „the devil is in the details“ – það hefur verið mest krefjandi en á sama tíma skemmtilegt, annars væri ég ekki að þessu.  

Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu?
Aðkoma Svefnseturins að verkefninu byggir aðallega á gríðarlega mikilvægri og fjölbreyttri þekkingu sem mannauðurinn, sem stendur bakvið Svefnsetrið býr yfir. Ég mun sækja tölvuert í þá þekkingu.  

Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?
Mjög margt, en til að nefna eitt þá er það að ef maður vill eitthvað nógu mikið, þá tekst það á endanum.  

Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?
Fyrir utan svefninn þá höfum við öll það sameiginlegt  það eru 24klst í sólarhringnum okkar. Gefum svefninum meira vægi 

 

Viðtal: Carmen Maja Valencia 

Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni. 
Ég heiti Carmen, er 32 ára og bý með tveimur dætrum mínum og unnusta í Kópavoginum. Ég starfa sem sálfræðingur hjá Auðnast þar sem ég ýmist held fyrirlestra um svefn eða sinni klínískri meðferð. Nýlega lauk ég MSc gráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Fyrir það hafði ég lokið BS gráðu í sálfræði og viðbótardiplóma í Uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands.   

Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni? 
Frá því að ég byrjaði í grunnáminu hefur áhugi minn mikið beinst að heilsusálfræði og öllum þeim þáttum í lífi okkar, hvernig við hegðum okkur, borðum og hreyfum okkur, sem hafa bein áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar. Á þeim tíma höfðu pælingar um svefn aldrei vakið sérstakan áhuga hjá mér en þess má geta að þarna hafði ég aldrei hlotið neina kennslu eða fræðslu um mikilvægi svefns. Þegar að ég hóf mastersnám í HR kom fljótlega að því að velja viðfangsefni fyrir lokaverkefnið. Valinu var háttað þannig að ég og samnemendur mínir fengum heilan dag af kynningum frá sálfræðingum og öðrum sérfræðingum sem sögðu okkur frá því sem þau voru að rannsaka, eða langaði að rannsaka, og óskuðu eftir mastersnema í lið með sér. Erna Sif kom og var með kynningu á barnarannsókn sem hún var að setja á laggirnar þar sem hún hugðist skoða kæfisvefn hjá börnum og langaði að fá sálfræðinema í lið með sér sem gæti skoðað andlega líðan barnanna í rannsókninni. Eftir þá kynningu má segja að það hafi ekki verið aftur snúið. Ég hef verið nokkuð heltekin af svefni síðan. 

Í hverju felst rannsóknin þín/verkefnið? 
Um var að ræða barnarannsókn þar sem minn hluti fólst í að skoða hver tengslin væru milli hrota og kæfisvefns hjá 8 til 14 ára gömlum börnum og hegðunar– og tilfinningarvanda annars vegar og skólagengis hins vegar. Rannsóknin fór þannig fram að börnin fengu svefnmælibúnað með sér heim í eina nótt þar sem ýmsir þættir varðandi svefninn þeirra voru skoðaðir. Til að mynda var mældur fjöldi öndurstoppa sem og gerð hljóðupptaka af hrotum. Foreldrar barnanna voru fengnir til þess að svara spurningarlistum varðandi svefngæði barnsins sem og lista sem mat hegðunar og tilfinningarvanda þess í samanburði við önnur börn á sama aldri. Einnig var óskað eftir samþykki til þess að afla upplýsinga varðandi gengi á samræmdum prófum í 4.bekk (þar sem flest börnin áttu sameiginlegt að hafa lokið þeim prófum).  

Hvernig hefur verkefnið gengið? (eitthvað sem hefur komið á óvart, hvað hefur verið krefjandi?) 
Heilt yfir gekk verkefnið vel. Það var gaman að sjá hversu viljug börnin og foreldrar þeirra voru í að taka þátt í rannsókninni með okkur og höfðu oft mikinn áhuga á því sem við vorum að gera. Einnig var alveg gífulega gaman að vinna úr niðurstöðunum og byrja að skoða þessi tengsl sem við höfðum áhuga á. Við vorum auðvitað með markmið um að ná ákveðnum fjölda þátttakenda sem okkur tókst ekki en ég hugsa að það sé oftast hluti af því að gera rannsókn á fólki.  

Það var vissulega margt krefjandi við að gera svona rannsókn en hugmynd mín af sambærilegum rannsóknum hefur breyst gífurlega eftir að hafa tekið þátt í þessari. Það er ótrúlega margt sem þarf að hafa í huga sem maður áttar sig kannski ekki á í upphafi. Til dæmis þegar unnið er með börn geta atriði eins og að afla upplýst samþykkis á þátttöku eða öflun ýmissa persónuupplýsinga verið gífulega flókin. Einnig var áskorun að bóka þátttakendur í mælingar þar sem alltaf þurfti að finna tíma sem hentaði foreldrinu jafnvel og barninu. Það gat komið fyrir að foreldrið var búið að bóka tíma í mælingu en barnið vildi alls ekki taka þátt. Í endann var samt góð tilfinning að sjá allt smella saman og fara að vinna úr niðurstöðunum. 

 Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu? 
Svefnsetrið hafði ekki verið sett á laggirnar þegar að rannsóknin okkar hófst en Erna og hennar samstarfsfélagar voru að vinna að því á sama tíma og við vorum að hefja okkar rannsókn. Ég hugsa að það hefði breytt miklu að hafa haft möguleikann á því að nýta Svefnsetrið en allar okkar mælingar fóru fram uppá Barnaspítala þar sem við höfðum ekki möguleikann á öðru.  

Hvað hefur þú lært af þessu verkefni? 
Alveg ótrúlega margt! Ég tel mig hafa lært mjög mikið af Ernu, bæði hvað varðar svefnrannsóknir, sem og hvað býr í góðum rannsakanda. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í að senda umsókn til Vísindasiðanefndar, sæki um alls kyns styrki fyrir verkefninu og bóka þátttakendur. Ég fékk líka að kynnast fullt af frábæru fólki en reynslan við að fá að vera hluti af svona stórri rannsókn, sem við kemur svona mörgum ólíkum sérfræðingum, er ómetanleg. Það sem ég lærði kannski fyrst og fremst er að svefnrannsóknir eiga heima hjá svo mörgum fagstéttum, frá líffræðingum yfir í sálfræðinga og jafnvel verkfræðinga.  

Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram? 
Til hamingju allir sem hjálpuðu til við að gera Svefnsetrið að möguleika! Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.