Koffín
Koffín er örvandi efni sem finna má frá náttúrunnar hendi í neysluvörum á borð við kaffi, te, kakó og súkkulaði. Þrátt fyrir að margir álíti koffín vera fæðubótarefni er það ekki svo. Koffín flokkast sem hugbreytandi efni og er í raun útbreiddasta hugbreytandi efni heims, auk þess að vera eitt af fáum löglegum.
Áhrif koffíns á mannslíkamann eru margþætt. Margir reiða sig á daglega koffínneyslu til að draga úr einkennum þreytu og auka einbeitingu. Koffín eykur árvekni og orku til skamms tíma, en getur einnig stuðlað að pirringi, kvíða, ógleði og höfuðverkjum, ásamt því að geta sett svefninn verulega úr skorðum.
Hvernig virkar koffín?
Fyrir hverja vökustund safnast upp efni sem kallast adenósín í heilanum. Adenósín eykur svefnþörf og þegar safnast hefur upp ákveðið magn verður svefninn óhjákvæmilegur. Koffín binst við sömu viðtaka og adenósín og kemur þannig í veg fyrir að adenósínið geti sent boð um uppsafnaða þreytu.
Flæði adenósíns stöðvast hins vegar ekki þrátt fyrir þetta, það heldur áfram að safnast upp. Þetta gerir það að verkum að þegar líkamanum tekst loks að brjóta niður koffínið, er magn adenósíns í líkamanum orðið umtalsvert meira en áður og er þá talað um að upplifa svokallað koffínhrun (e. caffeine crash). Helmingunartími koffíns er um sex klukkustundir, sem þýðir að sex klukkustundum eftir að þess er neytt gætir enn áhrifa um 50% koffínsins.
Þrátt fyrir að sumum takist auðveldlega að sofna eftir að hafa neytt koffíns, þýðir það ekki að viðkomandi sofi vel. Koffínneysla kemur niður á gæðum svefnsins, þá sér í lagi djúpsvefnsins. Djúpsvefn er okkur afar mikilvægur en þar fer m.a. fram vöðvauppbygging, frumuendurnýjun og hreinsun eiturefna, auk þess sem hann gerir okkur kleift að vakna endurnærð. Því er mælst til þess að lágmarka neyslu koffíns seinni part dags, til að stuðla að bættum svefni.
Aukaverkanir og fráhvarfseinkenni
Koffín er venjulega hættulaust í hóflegu magni, en getur þó kallað fram ýmsar aukaverkanir ef farið er yfir ráðlögð mörk. Má þar nefna svima, skjálfta, öran hjartslátt, hraða öndun, hækkaðan blóðþrýsting, höfuðverk, ógleði og eirðarleysi, auk þess sem það getur aukið á andleg vandamál líkt og kvíða og streitu.
Sé koffíns neytt reglulega, byggir líkaminn upp sérstakt þol fyrir því og áhrif þess á árvekni minnka til muna. Þess í stað verður koffín oft nauðsynlegt til að byrja daginn og sé þess ekki neytt, eða neyslu skyndilega hætt, finnur viðkomandi oft fyrir fráhvarfseinkennum á borð við höfuðverk, vöðvaverki og þreytu. Fráhvörf frá koffíni eru ekki talin hættuleg, en mælst er til þess að minnka neysluna í skrefum til að lágmarka óþægindi.
Hóflegt magn
Gæta verður þess að neyta koffíns í hóflegu magni, en allt undir 400mg (u.þ.b. 4-5 kaffibollar) á dag telst vera hófleg neysla. Þetta er þó að sjálfsögðu misjafnt eftir hverjum og einum, sumir eru viðkvæmari fyrir koffíni en aðrir og spilar líkamsþyngd, dagsform og uppbyggt koffínþol þar inn í. Þunguðum konum og konum með barn á brjósti er ráðlagt að drekka ekki meira en 200mg á dag, auk þess sem koffínneysla getur reynst skaðleg fyrir börn og unglinga og ættu þau því að forðast það. Koffín hefur ekkert næringargildi, svo hættulaust er að sleppa því alfarið.
Heimildir og frekari upplýsingar um koffín má finna á eftirfarandi síðum:
https://www.fda.gov/consumers/consumer-updates/spilling-beans-how-much-caffeine-too-much
https://www.mast.is/is/neytendur/mataraedi/ahrif-koffins
https://www.healthline.com/health/caffeine-effects-on-body#3
https://www.sleepfoundation.org/articles/caffeine-and-sleep
https://examine.com/nutrition/how-caffeine-works-in-your-brain/
Comments are closed