Upplýsingabréf til þátttakenda

Svefnbyltingin – prófun á nýjum mælitækjum

Kæri þátttakandi
Við þökkum þér kærlega fyrir áhuga á þátttöku í Svefnbyltingunni. Þetta verkefni fjallar um að finna nýja nálgun við greiningu á kæfisvefni. Gögnum verður safnað í Háskólanum í Reykjavík (HR) með svefnmælingum, rafrænni svefndagbók, athyglis- og árvekniprófum, spurningalistum, snjallúri, snjallmottu og einföldum líkamsmælingum. Hér á eftir eru upplýsingar um rannsóknina og hvað fylgir þátttökunni fyrir þig. Ef eitthvað er óljóst eða þú hefur frekari spurningar varðandi rannsóknina getur þú fengið upplýsingar hjá rannsakendum

Vegnar Covid-19 skal tekið fram að ítrustu varúðar verður gætt við mótttöku þátttakenda og við framkvæmd rannsókna. Ávallt verður farið eftir gildandi sóttvarnarlögum.

Hver er tilgangurinn með Svefnbyltingunni?
Markmið: Stefnt er að því að gjörbylta greiningu og meðferð kæfisvefns með því að nota nýjustu mælitæki sem í boði eru, bæði fyrir svefnmælingar (svefnmælitæki ásett af sjúklingi, snjallúr og snjallmotta) og rafræn athyglis- og árveknipróf ásamt rafrænni svefndagbók. Í kjölfarið verður verða gervigreindaraðferðir til að greina alvarleika hans og til að spá fyrir um afleiðingar (t.d. dagsyfja, heilablóðfall, hjartaáfall, andlát).
Ýmsar heilsutengdar afleiðingar tengjast kæfisvefni, t.d. aukin áhætta á hjartasjúkdómum, háþrýstingi og umferðaslysum vegna dagsyfju. Metið er að milljarður manna á heimsvísu þjáist af kæfisvefni. Núverandi greiningaraðferð, einföld talning fjölda öndunarhléa á klst svefns án þess að lengd þeirra eða áhrif á mismunandi kerfi líkamans samræmist illa einkennum og afleiðingum kæfisvefns. Þar að auki eru klíniskar aðferðir sem notaðar eru í dag til að greina svefn bæði gamaldags og kostnaðarsamar. Vegna þessa er meirihluti einstaklinga með kæfisvefn í samfélaginu ógreindir. Augljóst er því að mikil þörf er á bættum greiningaraðferðum sem og forvörnum og meðferðarþátttöku sjúklinga.
Áform Svefnbyltingarinnar er að nýta vitvélaaðferðir til að meta alvarleika kæfisvefns og meðferðarþörf þar sem stuðlað er að bættri heilsu einstaklings og lífsgæðum. Þessi tækni verður útfærð með ýmsum aðferðum sem þróaðar verða í verkefninu til að auka aðgengi að greiningarbúnaði og minnka kostnað við mælingar.

Hvað fylgir þátttöku í rannsókninni?
Þessi hluti Svefnbyltingarinnar hefur það að markmiði að prófa ný mælitæki sem notuð verða í rannsókninni.
Áhugasamir einstaklingar eru beðnir um að svara spurningalista á netinu til að sjá hvort þeir uppfylli inntökuskilyrði rannsóknarinnar. Slóðin er https://svefnsetrid.ru.is/oskad-eftir

Um 250 einstaklingum verður í framhaldi boðin þátttaka, bæði konur og karlar, á aldrinum 18-99 ára. Bæði heilbrigðir einstaklingar og einstaklingar með einkenni algengra svefntruflanana (þ.e. kæfisvefn, fótaóeirð og svefnleysi), a.m.k. 50 manns í hverjum hópi. Stefnt verður að því að fá góða dreifingu á líkamsþyngdarstuðli, aldri og kyni og verða þátttakendur valdir út frá því.

Rannsókn og undirbúningur
Ef þú ert boðaður í framhaldsrannsókn, þá fer heimsókn fram í HR og tekur um 1 klst. Þar er byrjað á því að kynna rannsóknina og skrifa undir samþykkisyfirlýsingu. Mæld verður hæð og þyngd. Næst er svefnrannsókn undirbúin. Fyrir svefnrannsóknina þarf þátttakandi að vera nýbaðaður
með hreint og þurrt hár. Nemar til að mæla svefnstig, svefngæði, öndun, hrotur, súrefnismettun, hjartalínurit, fótahreyfingar, hreyfingar, legu og svitnun eru settir á þátttakanda. Þátttakandi fer síðan heim með mælibúnað og sefur heima. Þátttakandi verður einnig beðin/n um að fylla út annan stuttan spurningalista, á pappír í tengslum við næturmælinguna. Næsta dag tekur þú búnaðinn af og honum er skilað í aðalmóttöku HR næsta morgun.

Hvar og hvernig eru gögn geymd?
Fulls trúnaðar mun verða gætt varðandi allar persónulegar og læknisfræðilegar upplýsingar um þátttakanda og í öllu farið að íslenskum lögum um varðveislu persónuupplýsinga.

Hvaða áhætta er fólgin í þátttöku í rannsókninni? 

Lítil sem engin hætta er fólgin í þátttöku í rannsókninni sjálfri. Einstaklingar geta þó upplifað einhver óþægindi tengd svefnrannsókn, þ.e. þeir sofa ekki jafnvel og venjulega.

Hver er ávinningur minn með þátttöku í þessari rannsókn?
Þátttaka í þessari rannsókn hjálpar vísindamönnum að þróa betra greiningartól til að meta hrotur og öndunarhlé í svefni og áhrif þeirra á aðra sjúkdóma. Þannig mun þú og aðrir hagnast á þessari þekkingu. Allir þátttakendur sem þess óska fá bréf með niðurstöðum um sinn svefn og hvort mæling bendir til kæfisvefns eða annars svefnsjúkdóms. Ávinningur fyrir þátttakendur er þá að þeir fá greinargóða vitneskju um sinn svefn ef þeir óska þess. Niðurstöður verða þá sendar á tölvupósti til einstaklinga ef samþykki liggur fyrir af þeirra hálfu, eða í bréfpósti. Ef niðurstöður rannsóknar þykja þurfa nánari athugun vegna mögulegs svefnsjúkdóms verður ráðlagt að hafa samband við heimilislækni og sækjast eftir viðeigandi meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Heimilislæknirinn sendir
í framhaldi tilvísun í svefnráðgjöf á Svefndeild LSH ef þörf er á.. Í þeim tilvikum, þar sem niðurstöður gefa til kynna kæfisvefn eða aðra svefnháða sjúkdóma, ef þátttakendi samþykkir, verða svefnmælingar sendar til Svefndeildar LSH og nýtist þar með í klínískum tilgangi fyrir sjúkling.
Rannsókn er þátttakendum að kostnaðarlausu.