Svefnsetrið hefur undir höndum háþróaðan tækjabúnað sem notaður er við svefnrannsóknir og mælingar. Tækjabúnaðurinn er eftirfarandi: 6 stk svefnmælitæki (Nox A1) ásamt 6 súrefnismettunarmælum (Nonin) frá Nox Medical. Ljósagleraugu (80 stk), frá AYO. Hreyfimælar (actigraphs) (80 stk), Condor ActTrust, frá NeuroCare. Auk viðeigandi tölvubúnaðar (fartölvur og spjaldtölvur).
Svefnmælitæki (e. polysomnography):
Svefnmælitækið mælir heila–, augn– og vöðvarit í svefni, stöðu, hreyfingar, öndun, svitnun, hljóð, skráir súrefnismettun og púls frá oxymeter. Notast er við Nox A1, svefnmælitæki frá Nox Medical, en um er að ræða þróaðasta búnaðinn á markaðnum í dag. Tækið er meðfærilegt og því getur einstaklingur sem kemur í svefnmælingu auðveldlega keyrt heim sjálfur þegar búið er að festa búnaðinn á viðkomandi. Nox Medical er íslenskt fyrirtæki sem er leiðandi á heimsmarkaði þegar kemur að svefnmælitækjum. Búnaður þeirra er notaður á alþjóðavísu.
Self-applied somnography:
SAS, eða self-applied somnography, er í þróun og býður upp á nýja nálgun þar sem fólk horfir á kennslumyndband á netinu og setur síðan búnaðinn upp sjálft. Búnaðurinn mælir svefn á svipaðan hátt og hið hefbundna PSG en stærsti munurinn er að heilaritið er eingöngu framheilarit og hjartalínuritið býður upp á fleiri rásir.
Myndband sem sýnir uppsetningu á svefnmælingu með framheilariti.
Myndir, video og texti (að hluta) fengin frá Nox Medical
Virkniriti (e. actigraph):
Tækið er í formi armbandsúrs og mælir dægursveiflu, líkamshreyfingu, hitastig húðar, svefnlengd og svefngæði til lengri tíma (1-2 vikur). Áætlað er að taka í notkun 80 virknimæla og er notast við ActTrust armbandsúr frá fyrirtækinu NeuroCare. Úrin safna gögnum um líkamshreyfingu og birtustig yfir daginn og geta út frá því áætlað hvenær farið er að sofa, hvenær farið er á fætur, hver lengd svefnsins er og gefið mynd af dægursveiflu líkamans. Hugmyndin er að setja úrin á stóran hóp þátttakenda til að fá mynd af svefnmynstri þeirra, en hluti hópsins verður í framhaldi sendur í alhliða svefnmælingu, þar sem notast er við svefnmælitæki, til að sannreyna gögn armbandsúranna
Gleraugu með dagljósabúnaði:
Dagsbirta er sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á dægursveiflu okkar. Röskun á dægursveiflu hefur verið tengd við fjölda heilsufarsvandamála, auk þess sem dægursveifla er grunnstoð þegar kemur að svefngæðum. Gleraugun herma sólarljós og gera þannig viðkomandi kleift að stýra magni þeirrar birtu sem hann er útsettur fyrir. Áætlað er að festa kaup á 80 gleraugum frá fyrirtækinu AYO, en það sérhæfir sig á þessu sviði, og er markmiðið að rannsaka áhrif birtustigs á dægursveifluna og að hvaða marki hægt er stýra þessum áhrifum.