Viðtal: Benedikt H Þórðarson
Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni.
Ég heiti Benedikt og er meistaranemi í tölvunarfræði. Ég útskrifaðist með BSc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni?
Leiðbeinandi minn í meistaraverkefninu er Dr. Jacqueline C. Mallet, en hún hlaut styrk til að vinna að verkefni í samstarfi við NOX Medical, sem sérhæfir sig í svefnmælitækjum.
Í hverju felst verkefnið þitt?
Ég er að kenna hugbúnaði að brjóta niður öndun einstaklinga, sem tekin er inn í merkjaformi, í staka andardrætti. Auk þess kenni ég hugbúnaðinum að þekkja það hvort umræddur andardráttur eigi sér stað í öndunarhléi eða ekki.
Hvernig hefur verkefnið gengið? Hefur eitthvað komið á óvart eða reynst krefjandi?
Verkefnið hefur gengið nokkuð smurt fyrir sig, en gögnin sem ég vinn með geta þó verið nokkuð flókin og erfið viðureignar. Mikill uppgangur er í rannsóknum á sviði svefnfræða, og er innleiðing tölvunarfræðinnar, vélnáms (e. machine learning) og gervigreindar í svefngeirann fremur nýtilkomin. Það getur því reynst þrautin þyngri að finna rétta nálgun á verkefnum.
Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu?
Þeir sérfræðingar sem koma að verkefninu starfa hjá Svefnsetrinu og hafa þeir hjálpað mér gríðarlega þegar kemur að grunnfræðum svefns, merkjagreiningu og læknisfræðilegum þáttum. Þessi hjálp hefur átt stærstan þátt í því mér tekst að leysa verkefnið á árangursríkan hátt.
Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?
Ég hef lært hve margslungin svefnvísindin eru og að við erum rétt að byrja að átta okkur á hverju má áorka á þessu sviði með smá hugmyndaauðgi.
Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?
Ég held að það sé urmull af tækifærum á sviði svefnvísinda, fyrir þá sem hyggja á frama innan þess geira. Allar lífverur sofa, á einn eða annan hátt, og uppgötvanir á þessu sviði gætu því verið ómetanlegar fyrir mannkynið, enda eyðum við þriðjungi af ævinni sofandi.
Viðtal: Birta Sóley Árnadóttir, nemi í Msc. í sálfræði
Segðu okkur stuttlega frá þér, menntun þinni og bakgrunni.
Ég heiti Birta Sóley og var að klára fyrsta árið mitt í BSc í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.
Af hverju ákvaðstu að fara út í rannsóknir tengdar svefni?
Mér hefur alltaf fundist svefninn mikilvægur en áhuginn á því að starfa við svefnrannsóknir kviknaði þegar að Erna Sif kom sem gestakennari í líffræðitíma hjá okkur. Hún fræddi okkur um mikilvægi svefns og hvað gerist í líkamanum á meðan við sofum. Hún sagði okkur frá mismunandi svefnröskunum og talaði til dæmis um ástæðuna fyrir því að það að vaka alla nóttina til þess að læra fyrir próf geti verið skaðlegt fyrir frammistöðuna á prófinu. Fyrirlestrarnir hjá henni kveiktu áhuga minn á fræðunum á bak við svefn og langaði mig að kynnast því hvernig er að vinna við þetta. Ég hafði því samband við Ernu sem hefur síðan veitt mér mikinn stuðning og kennt mér margt.
Í hverju felst rannsóknin þín?
Rannsóknin skoðar áhrif 36 klukkustunda svefnsviptingar og endurheimtasvefns á hugræna getu. Þátttakendum er haldið vakandi og framkvæma þeir hugræn próf og árverknipróf og svara spurningalistum um líðan. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það að fá raunverulegar íslenskar niðurstöður um áhrif svefnsviptingar er stórt skref í hugvakningu um mikilvægi svefns, en samkvæmt Hagstofu er Ísland sú þjóð á norðurlöndunum sem er með flesta einstaklinga í vaktavinnu og er því mikilvægt fyrir okkur að vita hvaða áhrif það hefur og geta frætt um afleiðingu skert svefns.
Hvernig hefur verkefnið gengið? Hefur eitthvað komið á óvart eða reynst krefjandi?
Verkefnið hefur farið hægar af stað heldur en upphaflega var stefnt að vegna Covid19 faraldursins. Hins vegar hefur undirbúningsvinnan gengið vel og höfum við nýtt tímann í það að undirbúa okkur enn betur fyrir framkvæmd rannsóknarinnar.
Hver var aðkoma Svefnsetursins að verkefninu?
Svefnsetrið er með yfirsjón á uppsetningu svefnmælitækja, framkvæmd árverkniprófa og annarra svefnprófa. Svefnsetrið sér síðan um að vinna úr þessum mælingum og prófum.
Hvað hefur þú lært af þessu verkefni?
Ég hef lært mjög margt af leiðbeinendum mínum í rannsókninni og tækifærinu að fá að starfa við rannsóknina. Ég hef fengið tækifæri til að nýta það sem ég hef lært á fyrsta árinu mínu í HR og lært ýmislegt sem ég kunni ekki áður. Ég hef lært vinnubrögðin í kringum svefnmælitæki og að leggja fyrir hugræn próf. Ég hef einnig lært mikið um fræðin á bak við svefn og hugræna virkni.
Eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?
Ég vil koma til skila þökkum til starfsfólks rannsóknarinnar fyrir góða leiðsögn og frábært tækifæri.