Svefnrofalömun

Svefnrofalömun (e. sleep paralysis) er svefnröskun sem felur í sér að einstaklingur verður ófær um að tala og hreyfa líkamann til skamms tíma, líkt og hann sé lamaður, þrátt fyrir að vera vakandi og með meðvitund. Svefnrofalömun getur átt sér stað annars vegar þegar einstaklingurinn er við það að festa svefn, eða þegar hann er að vakna eftir svefn.  

Röskuninni fylgja oft ofsjónir og heyrir einstaklingurinn jafnvel hljóð sem eru tilbúningur t.d. fótatak, tónlist eða raddir. Ástandið varir venjulega í nokkrar sekúndur eða mínútur. Það tekur venjulega enda af sjálfu sér en getur einnig horfið ef einhver talar við eða grípur í viðkomandi. Þessi upplifun getur vakið mikinn óhug og gerist þetta síendurtekið er hætt við að viðkomandi fari að kvíða því að sofa.  

Svefnrofalömun er þó venjulega skaðlaus og á sér eðlilegar skýringar. Lömunin á sér yfirleitt stað í REM-svefni en það er það stig svefns sem jafnan er tengt við drauma. Í svefni sendir heilinn boð um að slaka á vöðvum líkamans svo líkaminn missir hreyfigetu sína til skamms tíma og má því segja að vöðvarnir séu „lamaðir“ í þessu ástandi. Þetta þjónar bæði þeim tilgangi að hvíla vöðvana og endurnæra þá en einnig að koma í veg fyrir að einstaklingar hreyfi líkamann í takt við drauma sína þar sem slíkt gæti reynst þeim skaðlegt. Í vöku hættir heilinn að senda þessi boð og líkaminn öðlast hreyfigetu sína á ný. Þetta getur þó misfarist sem veldur því að þó viðkomandi sé vakandi og með fulla meðvitund er líkami hans enn í þessu svefnástandi. Það má því segja að einstaklingurinn sé bókstaflega á milli svefns og vöku í þessu ástandi.  

Svefnrofalömun kemur oftast fram í kringum táningsaldurinn og er mest áberandi í kringum þrítugs- og fertugsaldurinn. Hún getur þó verið viðvarandi fram eftir aldri. 

Þrátt fyrir að einstaklingurinn geti hvorki hreyft legg né lið í þessu ástandi er hann fær um að anda eðlilega og er því ekki í raunverulegri hættu. Þó ber að nefna að svefnrofalömun getur verið merki um drómasýki, sem er hættulegur sjúkdómur, en hún er mjög sjaldgæf auk þess sem önnur einkenni eru mun meira áberandi sé einstaklingur með drómasýki. 

Líkur á svefnrofalömun aukast verulega ef viðkomandi er undir miklu álagi andlega eða með óreglulegt svefnmynstur. Því getur reynst hjálplegt að koma á góðri svefnrútínu, þ.e. fara alltaf í háttinn og á fætur á sama tíma, takmarka koffín– og áfengisneyslu seinni part dags, takmarka skjánotkun fyrir svefn og stunda líkamsrækt fyrri part dags. 

Heimildir og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu American Academy of Sleep Medicine:

http://sleepeducation.org/sleep-disorders-by-category/parasomnias/sleep-paralysis

CATEGORIES:

Svefnraskanir

Comments are closed